Í Siglingafélagi Reykjavíkur, Brokey, er fjölbreyttur hópur af fólki með sameiginlegan áhuga á siglingum og seglskútum. Félagið var stofnað 7. febrúar árið 1971 og hefur starfað óslitið síðan. Auk þess að halda námskeið og siglingamót rekur félagið aðstöðu fyrir seglskútur við Ingólfsgarð í Reykjavíkurhöfn og sér um þjónustu við erlendar gestaskútur, en fjöldi þeirra fer vaxandi með hverju ári. Í Gufunesi er félagið með uppsátur fyrir seglskútur félagsmanna. Félagið vinnur náið með helstu samstarfsaðilum okkar í borginni, Faxaflóahöfnum og ÍTR, til að skapa sem besta aðstöðu fyrir siglingar í Reykjavík.

Um félagið

Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey er félag sem helgar sig siglingaíþróttum í Reykjavík. Félagið sinnir þannig kjölbátasiglingum og kænusiglingum. Félagið er með aðstöðu fyrir kjölbáta við Ingólfsgarð í Reykjavíkurhöfn og uppsátur á Gufunesi, og aðstöðu til kænusiglinga í Nauthólsvík fyrir ofan ylströndina.

Félagið er aðili að Siglingasambandi Íslands og hefur umsjón með nokkrum siglingamótum í mótaröð sambandsins. Auk þess heldur félagið opnar siglingakeppnir á sundunum á hverjum þriðjudegi yfir sumarið, hátt í tuttugu keppnir á hverju ári. Félagið stendur fyrir lengri hópferðum kjölbáta og margvíslegum viðburðum í kringum seglskútur og siglingar.

Félagið heldur reglulega námskeið í siglingum fyrir börn og fullorðna. Félagsbáturinn, Sigurvon, er notaður í hásetanámskeið sem fara fram á Ingólfsgarði og á sundunum og í Nauthólsvík eru siglinganámskeið á kænum og æfingadagskrá fyrir börn og unglinga allt sumarið.

Saga félagsins

Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey var stofnað í febrúar árið 1971 af tólf áhugamönnum um siglingar. Frá upphafi var tilgangur félagsins meðal annars að örva áhuga fólks á siglingum. Í fyrstu lögum félagsins sem samþykkt voru á aðalfundi árið 1974 var 2. gr. svohljóðandi: „Markmið félagsins er að starfa að og örva áhuga fólks á siglingaíþróttinni svo og á byggingu báta“. Félagið fékk aðstöðu við Nauthólsvík og hófst þar uppbygging félagsins. Frá 1971 voru þar síðan stundaðar kjölbáta-, kænu- og seglbrettasiglingar af miklu kappi. Félagið óx tvítugfalt til 1999.

Árið 1985 þótti ljóst að þáverandi aðstaða félagsins við Nauthólsvík var ekki til frambúðar. Skipulagsyfirvöld höfðu lagt fram tillögu um framtíðarskipulag svæðisins sem fól í sér að víkinni yrði lokað og umhverfið byggt upp sem útivistarsvæði. Borgaryfirvöld ætluðu um tíma félagsheimili Brokeyjar það hlutverk að verða stríðsminjasafn. Níels Nielsen komst svo að orði á aðalfundi 1985 að „… hætta [er á] að að okkur verði þrengt þar sem við erum ekki beinlínis í skipulagi þessa svæðis“. Í framhaldi af því fóru Níels og Ari Bergmann til viðræðna við borgaryfirvöld og Reykjavíkurhöfn um leyfi til að setja niður flotbryggjur í Reykjavíkurhöfn. Var umleitunum þeirra vel tekið og strax í júlí 1987 voru teknar í notkun fjórar bryggjueiningar á núverandi stað við Ingólfsgarð. Reykjavíkurhöfn átti drjúgan hlut í vinnu og kostnaði við að koma bryggjunum fyrir. Leguplássin fylltust strax og voru þar tuttugu bátar það sumar. Ári seinna var einingunum fjölgað um tvær. Bryggjurnar hafa sprengt utan af sér og brýnt orðið að þeim verði fjölgað sem og betur búið að þeim með tilliti til öldugangs. Haustið 2004 var síðan bætt við annarri flotbryggju, 100 m langri utan við gömlu flotbryggjuna. Hún hefur m.a. það hlutverk að veita skjól.

Árið 1993 var farið að tala af alvöru við Reykjavíkurhöfn um mögulegt húsnæði eða lóð við höfnina. Félagið naut mikillar velvildar hafnaryfirvalda og eftir að ýmsir möguleikar höfðu verið skoðaðir var gengið til samninga um að félagið leigði húsnæði við Austurbugt 3. Árið 1994 lögðu félagmenn undir dyggri forystu Jóns Rafns mikla vinnu í að standsetja húsnæðið. Hið nýja félagsheimili var síðan tekið í notkun í júní 1995.

Þegar framkvæmdir hófust við tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík árið 2007 var félagsheimili Brokeyjar rifið ásamt öðrum byggingum við Austurbugt og á Faxagarði. Í sárabætur fékk félagið tímabundna félagsaðstöðu við flotbryggjuna á Ingólfsgarði. Nú er til umfjöllunar skipulagstillaga þar sem félaginu er ætlaður staður á Ingólfsgarði og er unnið að því að móta þar nútímaaðstöðu siglingafélags til framtíðar. Um leið hefur aðstaðan í Nauthólsvík verið bætt með hliðsjón af siglinganámskeiðum fyrir börn og unglinga sem félagið heldur á hverju sumri.