Hver verður fjaðrakústur í kvöld?
Það er aðeins ein keppni eftir í Americas Cup. Staðan er jöfn, 8–8 og það lið sem nær 9 stigum hlýtur bikarinn. Úrslitastundin er því að renna upp. Aldrei hefur keppnin um Ameríkubikarinn verið jafn spennandi! Þess vegna ætlum við að líma okkur á skjáinn í Brokey á Ingólfsgarði kl. 20 í kvöld.
Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Team Oracle USA vinni, þeir hafa unnið sjö síðustu viðureignir. Fyrir rúmri viku var staðan 1–8 Nýsjálendingum í vil og við blasti að þeir færu með bikarinn heim. Spithill, skipstjóri Oracle var samt ótrúlega bjartsýnn þrátt fyrir harða gagnrýni. Algjör viðsnúningur hefur orðið á Oracle-liðinu. Í byrjun virtist það hreinlega ekki kunna að sigla og báturinn þyngri en traktor. Nú sýna þeir Nýsjálendingum hvernig á að gera þetta. „You can be a rooster one day, a feather duster the next, mate“, sagði Spithill á blaðamannafundi. Hvort verður hann rooster eða feather duster í kvöld?