Flotbryggjufréttir

/ mars 1, 2009

Það var vaskur hópur manna sem gerði við flotbryggjuna á laugardaginn. Gamla bryggjan, brimbrjóturinn, var slitin á þrem stöðum.

Eins og sjá má er bryggjan nokkuð skemmd á einum stað enda ekki hönnuð sem brimbrjótur heldur sem flotbryggja í lygna höfn.

Baldvin og Arnar sem eru aðal bryggjustjórarnir þetta árið, mættu í morgunsárið og hófu undirbúning verksins. Fyrst vettvangsskoðun og mat á skemmdum. Panta varahluti og verkfæri á staðinn og fá mannskap í verkið. Fyrst þurfti að búa til ofsa langa framlengingarsnúru sem náði alveg út á bryggjuna. Enginn skortur var á bátum til að aðstoða við verkið enda nóg af þeim á staðnum. Varð fyrir valinu að nota þann stærsta til að hefja verkið, flytja mannskap og búnað á bryggjuna. Fljótlega kom Siggi á bát frá gæslunni og Snorri bættist í hópinn. Formaðurinn kom með varahluti og gjaldkerinn með verkfæri. Með dyggri aðstoð nokkurra félagsmanna í viðbót tók ekki langan tíma að skipta um þá víra sem slitnir voru og var verkinu lokið fyrir kaffileytið.

Unnið er að endurskipulagningu flotbryggjunnar þessa dagana. Stóru bátarnir verða færðir utan á bryggjuna nærst landgangnum. Það er vegna þess að stóru bátarnir ná ekki beygjunni í stæði þegar farið er að blása smá. Þilið var nefnilega sett niður tíu metrum nær flotbryggjunni en um var samið í upphafi.

Allir bátar fá nýtt stæði á bryggjunni.

 

Share this Post