Frá siglingaþingi

/ febrúar 14, 2010

Siglingaþing fór fram á laugardaginn með um þrjátíu fulltrúum frá aðildarfélögum Siglingasambands Íslands. Fundurinn fór átakalaust fram og lítið breytt stjórn var kjörin með lófataki. Úlfur Hróbjartsson var áfram kjörinn formaður. Ársskýrsla og fjárhagsáætlun SÍL var lögð fram til samþykktar og skipað í nefndir.

Ef smellt er á „nánar“ má sjá örlitla umfjöllun um umræður á þinginu og mótaskrána 2010.

Í skýrslu SÍL er viðrað vandamál sem þar er kallað „baráttan um vatnið“ og lýtur að því hvernig þróun strandlengjunnar og áherslur sterkra hagsmunaaðila þrengja að íþróttaiðkun hvort sem er í sundi, á kajak, róðrabátum eða skútum. Kajakmenn nefna t.d. hvernig grjótgarðar alls staðar í kringum þéttbýli takmarka þeirra möguleika og jafnvel öryggi. Hagsmunaaðilar hafa þrýst á um að banna kajakróður í laxveiðiám á þeim forsendum að hann fæli fiskinn frá. Við í Reykjavík þekkjum þetta vissulega vel frá því þegar ylströndin í Nauthólsvík var sett niður fyrir okkar helsta athafnasvæði og enn heyjum við harða baráttu fyrir tilveru okkar beggja vegna nessins. Í kjölfarið á spurningu Baldvins sagðist Úlfur telja það verkefni félaganna að berjast fyrir aðstöðu sinni innan sinna sveitarfélaga en SÍL kæmi að því með almennum hætti sem stuðningsaðili fremur en eiga að því frumkvæði. Sem jákvæðir punktar voru nefnd ný félagsaðstaða Ýmis og úrbætur sem liggja fyrir í bryggjumálum í Hafnarfirði. Eins var nefnt að öllum er frjálst að gera athugasemdir við einstaka þætti skipulags á vef skipulagsráðs Reykjavíkur. 

Þá spunnust umræður um fjármál aðildarfélaga SÍL sem mörg hver hafa séð á eftir öflugum stuðningsaðilum í kjölfar bankahrunsins og horfa því fram á skerta möguleika til starfsemi næsta sumar. 

Nokkur umræða var um mótaskrána eins og venja er. Fyrir lá tillaga að uppstillingu móta fyrir sumarið 2010. Niðurstaða allsherjarnefndar var sú að samþykkja hana eins og hún lá fyrir, þrátt fyrir að sumir fundarmenn hefðu kallað eftir fleiri stigatalskeppnum. Nefndin lagði jafnframt til að mótaskráin yrði ákveðin með meiri fyrirvara til að gefa fólki enn betri frest til að skipuleggja sumarið þannig að núna yrði t.d. hægt að bera upp samþykkt mótaskrár 2011. Samþykkt var að fela stjórn SÍL að móta tillögur þar um.

Eftirfarandi er því mótaskráin 2010 eins og hún var samþykkt á siglingaþingi:

Dagsetning Mót
Tegund
Félag
Stig
30. apríl Elliðaárródeó Straumkajak Kayakklúbburinn  
1. maí Reykjavíkurbikarinn Sjókajak Kayakklúbburinn  
15. maí Opnunarmót Kjölbátar Þytur
30.-31. maí Egill rauði Sjókajak KAJ  
5. júní Opnunarmót Kænur Ýmir  
5. júní Hátíð hafsins Kjölbátar Brokey  
6. júní Sjómannadagurinn Allir Allir  
17. júní Þjóðhátíðarmót Kjölbátar Brokey  
19. júní Bessastaðabikar Sjókajak Kayakklúbburinn  
25.-27. júní Faxaflóamót Kjölbátar Brokey
26. júní Tungufljót Straumkajak Kayakklúbburinn  
29. júní – 3. júlí Æfingabúðir Kænur Ýmir  
4. júlí Miðsumarmót Kænur Ýmir  
Óákv. Midnight Sun Race Kjölbátar Nökkvi  
10. júlí 10km á Suðureyri Sjókajak Sæfari  
17.-18. júlí Sumarmót Kjölbátar Ýmir  
24.-25. júlí Sumarmót Kænur Brokey  
3.-8. ágúst Íslandsmót Kjölbátar Brokey
13.-15. ágúst Íslandsmót Kænur Nökkvi  
4. september Lokamót Kænur Þytur  
4. september Hvammsvíkurmaraþon Sjókajak Kayakklúbburinn  
4. september Haustródeó Straumkajak Kayakklúbburinn  
11. september Lokamót Kjölbátar Ýmir
31. desember Áramót Frjálst Ýmir  
Share this Post