Glæpavæðing íþróttagreinar

/ febrúar 29, 2008

{mosimage}Undanfarin ár hefur siglingaíþróttin verið glæpavædd af mikilli atorku og kappi hjá löggjafarvaldinu. Hvað á greinarhöfundur hér við? Glæpavæðing einhvers, auðvitað undir öfugum formerkjum eins og hér er:


Að setja lög og reglur sem iðkendur eiga að fylgja án þess að nokkrar forsendur séu fyrir lagasetningunni.

Siglingaíþróttin hefur verið stunduð í hundruð og jafnvel þúsundir ára. Hingað til hefur ekki þurft sérstök lög um að meiga stunda hana. Nú er það þó orðið þannig að ef skútan þín er sex metrar eða lengri þá þarf að sækja um sérstakt leyfi til yfirvalda til að stunda íþróttina.

Það er alveg ljóst að þarna brást hagsmunagæsla okkar algerlega og getum við sjálfsagt ekki kennt öðrum en okkur sjálfum um.

Síðasta svona atlaga sem gerð var að íþróttinni kom frá þáverandi Siglingamálastofnun Íslands. Í þá daga var það svifasein ríkisstofnun með allt of mikið vald. Frá stofnuninni kom reglugerðartillaga um skoðun og búnað báta. Í stuttu máli sagt var eingöngu miðað við lengd báta. Þannig að kajakar og slík tæki voru í raun skylduð til að vera með akkeri og fleira ef lengd þeirra fór yfir sex metra. Ef báturinn fór yfir átta metra var skylda að vera með björgunarbát osfrv. Ein reglugerðartillagan hljómaði þannig að optimistarnir í klúbbunum voru í raun skyldugir til að vera með slökkvitæki, sjúkrakassa og fleira. Sem betur fer tókst að lagfæra þssar reglugerðartillögur á sínum tíma.

Þessi mál löguðust öll þegar við gengum í EES, en virðast vera að versna aftur.

Hver er tilgangur þess að krefjast skemmtibátaskírteinis, réttinda sem aldrei hefur þurft hingað til í mannkynssögunni?

Eðlilegt er að krefjast ríkulegs rökstuðnings fyrir slíkri íþyngjandi ákvörðun.

Ekki hefur svokallað réttindaleysi skútusiglara verið eitthvert vandamál í samfélaginu. Ekki hefur mönnum dottið til hugar að krefjast réttinda á reiðhjól eða skíði. Er þó slysatíðni við notkun þess búnaðar ákveðið vandamál. Slysatíðni í siglingum er næstum óþekkt fyrirbæri.

Reglugerðarsetningunni til viðbótar hefur lögreglan eytt tugum milljóna í búnað og þjálfun til eftirlits með… hverju? Iðkendur þessarar íþróttar mæta nú lögreglu reglulega við iðkun íþróttar sinnar þar sem lögreglan virðist vera að hafa eftirlit með keppnum…

Er kannski eðlilegt að krefjast þess að þessi ákvörðun löggjafarvaldsins verði dregin til baka eða breytt stórlega?

Er kannski vandamálið ekki skútur þar sem algengur ferðahraði er 5hnútar sé ekki vandamál heldur aðrir bátar þar sem ferðahraðinn er 50hnútar? Var það kannski það sem þurfti að ná tökum á? Er kannski vandamálið einmitt það að hægt er að labba sér inn í búð og kaupa sér bát og setja hann bara á flot og spítta af stað á slíkum hraða að stórtjón hefur hlotist af? Átti reglugerðin kannski í raun að fjalla um afl og hraða farartækja frekar en að ná yfir allt og alla. Líka þá sem engin hætta hefur stafað af hingað til í mannkynssögunni?

Er kannski kominn tími til að stöðva þann glæp að glæpavæða siglingaíþróttina?

Baldvin

Share this Post