Glæsilegt Íslandsmót í Hafnarfirði

/ ágúst 17, 2009

Það hefur varla farið framhjá neinum að síðustu helgi var haldið Íslandsmót í kænusiglingum í glimrandi siglingaveðri í Hafnarfirði. Þytur sá um framkvæmd mótsins að þessu sinni og var keppt í fjórum flokkum: Optimist A og B, Topper Topaz og blönduðum Laser. Sjö ungir siglingamenn frá Brokey kepptu í tveimur flokkum og er skemmst frá því að segja að okkar fólk landaði Íslandsmeistaratitlinum í þeim báðum.

Búi Fannar Ívarsson náði fyrsta sætinu í öllum umferðum nema þeirri fjórðu og tryggði sér þar með titilinn í Optimist B-flokki nokkuð örugglega. Erlendur Snæbjörnsson var í fjórða sæti og sigurvegarinn frá því á landsmótinu í sumar, Lína Dóra Hannesdóttir, endaði í því fimmta. Snorri Már Snorrason og Rúbína Singh úr Nökkva voru í öðru og þriðja sæti. Keppnin var hörð í þessum flokki og munaði ekki nema einu stigi á 3., 4. og 5. sæti.

Hulda Lilja Hannesdóttir og Hilmar Páll Hannesson voru í fantaformi og sigruðu örugglega á Topper Topaz annað árið í röð. Náðu fyrsta sæti í öllum umferðum nema einni. Aron Steinn Guðmundsson og Hinrik Snær Guðmundsson úr Ými sigldu líka örugglega í annað sætið og Breki Arnarsson og Ísak Tómasson úr Nökkva lönduðu þriðja sætinu eftir harða keppni við Sindra Þór Hannesson og Anders Rafn Sigþórsson úr Þyt. Annað lið Brokeyjar, Orri Leví Úlfarsson og Gunnar Hlynur Úlfarsson, lentu í sjöunda sæti.

Keppnin í Laser-flokki vakti samt einna mesta athygli og fékk góða umfjöllun í fréttum RÚV þar sem nokkrir gamlir í hettunni veittu unga fólkinu harða keppni. Keppninni lyktaði með afgerandi sigri ÓL-farans Hafsteins Ægis Geirssonar sem náði fyrsta sætinu í öllum umferðum nema þeirri fyrstu og heimti þannig þriðja Íslandsmeistaratitil sinn á nokkrum vikum. Ekki var þó við neina aukvisa að eiga þar sem Nökkvamenn eru, búnir að æfa stíft og taka út eldskírnina á Smáþjóðaleikunum í vor.

Úrslitin má lesa í heild sinni hér. Hægt er að skoða myndir frá keppninni hér, hér og hér. Hérna er svo skemmtileg QuickTime-ræma frá mótinu (6,3 M).

Share this Post