Halda svo til hafnar…

/ júní 15, 2008


Eins og athugulir sáu um síðustu helgi þá fór Hera frá Reykjavíkurhöfn klukkan 21 laugardaginn 7. júní. Hálftíma síðar sveimaði GNÁ sem er ein af landhelgisgæsluþyrlunum svo nærri að næstum mátti snerta þyrluspaðana.

Þeir sem um borð voru vissu náttúrulega ekki hvaðan á þá stóð veðrið í bókstaflegri merkingu. Opnast svo dyr þyrlunnar og einhverskonar myndavél birtist, dyrnar lokast jafnharðan aftur. Þyrlan snýr svo beint heim til Reykjavíkur, beint þaðan sem hún kom. Ekkert var reynt að hafa samband við bátinn um talstöð. Til stóð að sigla Heru til Vestmannaeyja en vegna veðurs var endað í Þorlákshöfn. Á mánudag er reynt að hafa upp á upplýsingum um hverju þetta hafi sætt með þyrluna. Kom þá í ljós að það var angi af löngu leiðindaferli með Siglingastofnun. Hera var með haffæri og skráningu en Siglingastofnun var ekki búin að skila því af sér. Þegar Hera tilkynnti sig frá Reykjavík var auðvitað bara gefið upp númer bátsins og svarað „alltílæ“ á hinum endanum. Þegar Hera kemur í höfn í Sandgerði til að sofa af sér leiðinda mótvind þá kemur í ljós að allar upplýsingar vantar hjá stjórnstöð. Arnon þarf að gefa þeim bátsnafn og allar upplýsingar því það barst þeim aldrei. GNÁ var sem sagt bara að gá hvort Hera væri á floti. Þeir komu svona nálægt til að sjá skipaskrárnúmerið. Skyldan var að reyna að kalla í Heru allt frá því lagt var úr höfn en það var ekki svarað, enda er enginn dekkhátalari og enginn heyrði í talstöðinni.

En hvað um það. Eins og sjá má á myndinni með þessari frétt er Hera farin héðan til útlanda. Það er ekki alveg öruggt hver leiðin verður eða hvar verður gengið á land, enda getur það allt breyst eftir veðri þegar maður ferðast á skútu. En það er alveg víst að búið er að fá stæði fyrir Heru í Muiderzand í Hollandi seint í sumar. Þar verður lullað um á bátnum og á svæðinu í kring næstu árin væntanlega.

Myndin er af svokölluðu „Spot“ sem er hundódýrt og einfalt staðsetningarkerfi sem virkar gegnum Global gerfihnattasímakerfið. Einn aðilanna um borð er með svona tæki í bátnum og eins og sjá má þá er alveg á hreinu hvar þeir eru og við vitum mjög fljótlega ef þeir eru það ekki.

 

Share this Post