Hemingway í 100 orðum

/ desember 4, 2006

Við slógumst við samskonar fisk og gamli maðurinn hans Hemmingways. Ógnarfiskurinn beit á skömmu áður en við komum að fyrsta kóralrifinu í Smáueyjum…

 


Það varð uppi fótur og fit þegar hann stökk í fyrsta sinnið, þriggja metra skepnan. Svo byrjaði baráttan, samskonar barátta og hjá gamla manninum. En okkur tókst betur en honum því eftir tveggja tíma baráttu lá hann á þilfarinu hjá okkur, óétinn af hákörlum. En okkar skepna var bara 75 kíló, miklu minni en skepnan hjá Ernest og það tekur mig bara um 100 orð að segja frá þessu en ekki heila bók eins og hjá honum.

Ef einhvern vantar svona kóraleyju með pálmum og hvítum sandi virðist úrval af slíku hér. Á kóralrifinu sem við liggjum á núna eru margar eyjar en bara ein þeirra byggð og íbúafjöldinn er 10 manns. Þetta eru eyjar sem eiga vel heima í túristabæklingum um töfra suðurhafa. Sjórinn á rifinu er eins og risastórt fiskabúr, krökkt af allavega furðufiskum. Hafið utanvið rifið 5000 metra djúpt svo kaldur djúphafssjórinn ber upp helling af næringu handa öllum fiskunum. Uppi á eyjunum vex hvað sem sett er niður. Næstum eitt hundrað sjómílur í næsta byggða ból nema þessa tíu. Paradís. En samt flytur fólkið í burtu og eyjarnar fara í eyði. Heima yrði kvótakerfinu kennt um, einhverju öðru hérna.

kveðjur frá 8 18,8n 137 30,5e 26.11.2006 21:12/MW

Magnús Waage

Share this Post