Hipp Hipp Húrra!

/ febrúar 7, 2021

Brokey fagnar 50. ára afmæli í dag og þá er gott tilefni til að skrifa nokkur orð.
Ég byrjaði að sigla með Brokey 2007, þá 13 ára gömul en hafði farið á námskeið hjá Siglunesi.
Stjórnin hafði ákveðið að kaupa nokkra glænýja optimista og eftir 2 vikur af æfingum vorum við mætt á Íslandsmót á Akureyri. Ekki nógu sjóuð til að starta alveg á réttum tíma en það var að engu að síður ekki aftur snúið. Ég er því þakklát fyrir þessa ákvörðun þáverandi stjórnar og auðvitað öllum þeim sjálfboðaliðum sem hafa haldið starfinu gangandi í gegnum tíðina. Það er svo gaman að sjá nýja krakka koma inn, finnast þau velkomin í hópi sem hjálpast að og tekst á við áskoranir. Siglingarnar hafa gefið mér mjög mikið og komið mér í fjölbreyttar, skemmtilegar aðstæður. Ein af þeim var þegar ég sigldi á Jökulsárlóni 2014. Skemmtileg saga er þegar pabbi á leið austur á seinasta ári, situr við Jökulsárlón og lendir á spjalli við annan mann. Einhvern veginn berast siglingar í tal og upp kemst að þessi maður hafi verið sá þriðji til að sigla kænu á Jökulsárlóni. Þar á undan hafi verið annar(Úlfur, sem kom nú hugmyndinni í kollinn hjá mér) og svo einhver kona verið sú fyrsta. Pabbi var nú alveg með á hreinu hver það hefði nú verið!
Ég er spennt fyrir framtíð klúbbsins og að leggja mitt af mörkum til þess að fleiri fái að njóta þessarar frábæru íþróttar.

Hulda Lilja Hannesdóttir

Share this Post