Hugur siglir suður höf

/ mars 21, 2015

Kristófer Oliversson og Svanfríður Jónsdóttir kona hans eru félagar í Siglingafélagi Reykjavíkur – Brokey síðan árið 2000.  Þau áttu hlut í Norninni með okkur Kristjáni Skúla þar til á síðasta ári.  Draumur þeirra var að sigla umhverfis hnöttinn á sextugsafmælisári þeirra.  Þessi draumur er nú að rætast.

Hugur

Þau keyptu sér hæfilega skútu til ferðarinnar árið 2013; Najad 52 árgerð 1998.

Skipið var staðsett í Króatíu. Það hefur kostað margar ferðir að fríska það upp og ferðbúa.

Keppnin er haldin á vegum World Cruising.com, sem hefur haldið slíkar keppnir síðan 1986.  Þeir hafa ágæta heimasíðu undir sama nafni.   Þar er boðið upp á 10 valkosti í hópsiglingum víða um hnöttinn.  Þessi er þó viðamestur, um 26.000 sjómílur.

Kristófer kynnti þessa ferð á fundi Kjölbátasambandsins í fyrravor.

Við fórum saman á London Boat Show í janúar 2014, þar sem World Arc 2015 var kynnt og væntanlegir þátttakendur hittust. Þau hafa tekið þátt í fleiri námskeiðum á vegum þeirra, og einnig aflaði sér menntunar og réttinda hér heima; skipstjórnar-, véla- og loftskeytaréttinda.

Ég sigldi með þeim MaltCruise um Suðureyjar í júlí 2012. Þar kynntumst við fyrirtækinu og hrifumst af stjórnendum þess og ágætu skipulagi ferða. Ég sagði frá þeirri ferð á fundi Kjölbátasambandsins í nóvember sl.

Þau lögðu upp frá Króatíu í júní í fyrra og voru komin til  Kanaríeyja í nóvember.

Þaðan tóku þau þátt í ARC+ 2014 keppninni til St.Lucia í Karíbahafi.  Þau höfðu viðkomu á Grænhöfðaeyjum á leiðinni. Siglingin yfir Atlantshafið tók 2 vikur.  Þau fengu háseta frá Kanarí til Grænhöfða, þýskan blaðamann frá tímaritinu Yacht,  sem skrifaði ágæta grein í blaðið.  Þessi keppni var þó aðeins byrjunin á megin ferðinni; World ARC 2015-16, sem hófst 9 janúar 2015.  Þetta er ekki bara hópsigling heldur kappsigling. Leiðinni er skipt í leggi og nú er þeim 4. að ljúka; frá Galapagos til Markesas eyja.

Ég sigldi með þeim 3. legg í febrúar sl, frá Perlueyjum utan við Panama til Galapagos, um 850 sjómílur. Við lentum í 2. sæti af 13 keppendum. Ferðin var æsileg á köflum. Sjá úrslit hér

Við sigldum um 216 mílur fyrsta sólarhringinn, eða á 9 mílna meðalhraða.  Þetta  er þó ekki stöðugur sprengur; það gefst tími til að kanna og kynnast þeim stöðum sem staldrað er á. Þannig var stoppað í 16 daga á Galapagoseyjum og náttúran skoðuð í þaula.

Það verður aðeins slakað á í frönsku Pólinesíu næstu vikur.  En oft leyfir ekki af að menn nái að lagfæra það sem aflaga fer  á siglingunni.  Þau eru tvö á skútunni á þessum legg og gengur ágætlega. Ættu að verða með fremstu skipum á þessum legg, þegar búið er að draga frá mótortíma. Fyrstu skip eru að koma í mark í dag.

Það má fylgjast með þeim á http://www.worldcruising.com/world_arc/eventfleetviewer.aspx

Sem svipar til Marinetraffic.com, sem margir þekkja.

Grein um keppnina, Yacht article ARC

Mos. 21.3.2015, Snorri Tómasson

Svanfridur and Kristofer on Hugur

Svanfríður Jónsdóttir & Kristófer Oliversson á góðri stundu.

Share this Post