Hvar er Jakob Fenger?

/ júní 26, 2008

Eftir nokkra fundi og pælingar með aðstandendum Jakobs er líklegast að kappinn hafi sleppt því að koma við í St. Johns á Nýfundnalandi. Þegar hann nálgaðist höfn þar var vindurinn beint á móti í nokkra daga og í raun meira freistandi að halda bara áfram ef það er hægt. Það er staðfest að hann ætlaði til Íslands en ekki alveg útilokað að hann hafi tekið stefnuna á Írland, sérstaklega með tilliti til veðurs.

 


Það hafa engin sérstök óveður gengið yfir neinstaðar á leiðinni. Kannski einn lítill og leiðinlegur frontur þann 5. sem gæti hafa innihaldið þrumuveður, en stóð stutt. Á Atlantshafinu hefur hins vegar verið næstum logn á leiðinni milli Nýfundnalands og Íslands allan tímann. Það er því ljóst að ekki fer skúta hratt yfir á þeirri leið. Við það er áætlunin á myndinni miðuð.

Það eru fjórar ágiskanir á kortinu. Ein er til hafnar í St. Johns. Önnur er til Íslands. Þriðja er til Írlands. Fjórða er hvar hann væri ef hann væri á reki masturslaus.

Eins og sjá má á dagsetningunum þá er bara að setjast niður í rólegheitum og bíða… Hann er með nægar vistir um borð fyrir þrjá mánuði.

Þetta gisk um staðsetningu Jakobs er unnið af Baldvin Björgvinssyni eftir fundi með Haraldi Teitssyni og fleirum.
Sérstakar þakkir til Íslensku Landhelgisgæslunnar, Íslensku Veðurstofunnar, Veðurstofu Bermuda og Kanadísku Landhelgisgæslunnar.

Share this Post