Íslandsmót kjölbáta 2010

/ ágúst 4, 2010

Íslandsmót í kjölbátasiglingum verður haldið í Reykjavík helgina 6.-8. ágúst næstkomandi. Smellið á ‘nánar’ til að skoða tilkynninguna. 

Fyrirkomulag varðandi mat og verðlaunaafhendingu verður nánar kynnt síðar á þessari síðu.

 

ÍSLANDSMÓT Í KJÖLBÁTASIGLINGUM

6. – 8. ágúst 2010

Haldið af
Siglingafélagi Reykjavíkur, Brokey
á sundunum við Reykjavík

TILKYNNING UM KEPPNI


1 Reglur

Keppt verður samkvæmt:

a) Kappsiglingareglum ISAF 2009 til 2012 (enski textinn gildir)
b) Kappsiglingafyrirmælum SÍL
c) Kappsiglingafyrirmælum mótsins sem afhent verða á skipstjórnafundi fyrsta keppnisdag

2 Auglýsingar
Auglýsingar eru leyfðar samkvæmt flokki C í Alþjóða kappsiglingareglunum

3 Þátttökuréttur

Rétt til þátttöku hafa einungis fullgildir félagar í siglingafélögum samkvæmt móta- og keppendareglum SÍL. Þetta á við um alla áhafnarmeðlimi báts sem tekur þátt í keppni. Brot á þessari reglu varðar brottvísun úr keppni.

4 Þátttökugjald
Þátttökugjald á hvern þátttakanda (hvern áhafnarmeðlim) er kr.2.500,-

Þátttökugjald verður innheimt á skipstjórnarfundi fyrsta keppnisdag (sjá 5. grein). Athugið að gengið verður eftir því að allir áhafnarmeðlimir séu skráðir og að þeir séu allir félagar í siglingafélagi sbr. 3. grein.

5 Tímaáætlun
Gert er ráð fyrir því að mótið standi frá hádegi föstudag til laugardagskvölds. Sunnudagurinn er hafður til vara ef aflýsa þarf keppni annan hvorn keppnisdaginn.

1. skipstjórnafundur, mótttaka þátttökugjalds og afhending kappsiglingafyrirmæla 6. ágúst kl. 13:00 (gert ráð fyrir amk. 2 umferðum). Fyrsta rásmerki kl. 14:00.
2. skipstjórnafundur 7. ágúst kl. 9:00 (gert ráð fyrir amk. 4 umferðum). Fyrsta rásmerki kl. 10:00.
Úrslit og verðlaunaafhending 7. ágúst kl. 21:00

Gert er ráð fyrir því að sigla 6 umferðir og verður einni verstu umferð sleppt við stigagjöf nema ekki náist að sigla nema 3 umferðir eða færri en þá verður engri umferð sleppt við stigagjöf.

Tímasetningar geta breyst og eru tilkynntar á skipsstjórafundi, eða gegnum talstöð (rás 6 á VHF) ásamt merkjafánum. Keppni getur verið felld niður eða frestað til annars dags samkvæmt ákvörðun keppnisstjórnar.

Laugardagskvöldið verður hátíðleg verðlaunaafhending en staðsetning hennar verður tilkynnt á skipstjórnarfundi.

6 Mælingar
Keppt verður samkvæmt IRC forgjöf og skal framvísa gildu mælibréfi fyrir alla báta. Bátar sem ekki skila inn slíku bréfi á fyrsta skipstjórnafundi verða ekki skráðir í keppni og mega ekki taka þátt. Einu gildir þótt slíku bréfi hafi áður verið skilað vegna annarra siglingamóta á vegum Brokeyjar.

7 Keppnisfyrirmæli
Keppnisfyrirmæli verða veitt á skipstjórnafundi í upphafi hvers keppnisdags.

8 Keppnisbraut
Keppt verður á sundunum við Reykjavík. Sigldar verða nokkrar umferðir um baujur.

Tilhögun keppnisbrauta verður kynnt á skipstjórnarfundi fyrsta keppnisdag.

9 Skráning
Tilkynningu um þátttöku skal senda til keppnisstjórnar fyrir kl. 22:00 miðvikudaginn 4. ágúst með athugasemd við tilkynningu um keppni á vef Brokeyjar, www.brokey.is, eða með smáskilaboðum eða símtali við keppnisstjóra (sjá 14. grein). Endanlegum áhafnarlistum skal skilað á skipstjórnafundi fyrsta keppnisdag.

10 Stigakerfi
Notað verður lágstigakerfi samkvæmt viðauka A í Alþjóða kappsiglingareglunum. Minnst þrjár umferðir skulu reiknaðar til stiga. Verði fleiri umferðir sigldar verður slökustu umferð hvers báts kastað.

11 Samskipti
Bátar skulu ekki hafa samskipti við keppnisstjórn eða sín á milli sem ekki eru opin öllum keppendum, hvorki með farsíma né talstöð, nema í neyðartilvikum.

12 Verðlaun
Veitt verða verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin. Sigurvegari keppninnar hlýtur farandbikar og titilinn „Íslandsmeistari í kjölbátasiglingum árið 2010‟.

Verðlaunaafhending fer fram að kvöldi síðasta keppnisdags kl. 21:00. Staðsetning verður tilkynnt á skipstjórnafundi fyrsta keppnisdags.

13 Ábyrgð og tryggingar
Allir sem taka þátt í mótinu gera það á eigin ábyrgð.

Skipuleggjendur firra sig allri ábyrgð vegna tjóns eða líkamsskaða eða dauða í tengslum við, á undan, eða eftir eða meðan á keppni eða mótinu stendur.

Hver bátur skal vera tryggður með gildri ábyrgðartryggingu sem nær til þess tjóns sem orðið getur.

14 Frekari upplýsingar

Frekari upplýsingar fást hjá keppnisstjórum, Kjartani Ásgeirssyni í síma 698 7373 (netfang: kjartanasgeirsson@hotmail.com) og Áka G. Karlssyni í síma 821 3853 (netfang: akigka@gmail.com).

Share this Post