Íslandsmót 2009

/ ágúst 10, 2009

 
Þessa mynd tók Ingi Ragnar af nokkrum bátum á Íslandsmóti í kjölbátasiglingum sem fram fór dagana 7. og 8. ágúst. Siglingafélagið Ýmir sá um mótið. Sigldar voru 6 umferðir á brautum á Skerjafirði og inná Fossvog. Það var glæsileg sjón úr landi. Vindur var missterkur en nægur alla keppnina.
Keppnisstjórn notaði nýtt kerfi til að lýsa keppnisbrautum. Helmingur flotans misskildi kerfið og tók ranga stefnu og sigldi á haf út. Þetta olli þeim sem sigldu rétta braut nokkrum áhyggjum, hvor helmingurinn hafði rétt fyrir sér?
Þegar allir vilja standa sig sem best, vill flest fara úrskeiðis. Illa gekk að halda einbeitingu því það var alltaf eitthvað að gerast einhvers staðar, ef ekki um borð í eigin bát, þá einhvers staðar annars staðar í brautinni. Mikill hasar var við baujur, hróp og köll. Belgir vildu ekki niður, bátar sigldu á baujur, refsihringir, föst stýri o.fl. Eftir því sem við komumst næst skemmdist ekkert utan þess að smá rifa koma á eitthvert seglið.
Að lokinni keppni var haldin veisla í nýja félagsheimili Ýmis. Eftir borðhald voru verðlaun afhent. Dögun hreppti fyrsta sætið og þar með Íslandsmeistaratitilinn. Aquarius náði öðru sæti og Lilja lenti í þriðja sæti. Áhöfnin á Aquarius notaði tækifærið og bar gjafir í áhöfnina á Ísmolanum sem þakklætisvott fyrir hjálpina við að smíða nýtt mastur úr gömlum og brotnum möstrum.
Keppnisstjórn á hrós skilið fyrir keppnishald sem gekk eins og smurð vél. Við þökkum keppnisstjórn og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg fyrir frábært Íslandsmót. Eins þökkum við keppendum góða og drengilega keppni.
 
 Sæti  Bátur   K1   K2   K3   K4   K5   K6   Heild
 1  Dögun   3   1  4  2  2  1  9
 2  Aquarius   4  4  1  3  1  3  12
 3  Lilja  1  2  8  4  4  2  13
 4  Ísmolinn  2  5  3  1  3  4  13
 5  Xena  5  3  2  5  5  5  20
 6  Skegla  7  7  5  6  6  7  31
 7  Ögrun  9  6  6  8  7  6  33
 8  Dís  6  8  7  7  8  8  36
 
Sjá nánar á heimasíðu Ýmis
 

Share this Post