Kókoshnetur og hrísgrjón

/ desember 4, 2006

Söngurinn og trumbuslátturinn er bæði seiðandi og ógnvekjandi. Minnir dálitið á grænlenskan. Við liggjum við ankeri neðarlega í Sepik ánni, nokkra tugi metra frá landi og söngurinn kemur frá andahúsinu, Haus Tambaran…

 


Svo talar einn þeirra öðru hvoru inn á milli laga og virðist reiður. Mér heyrist þetta vera Tok Pigin og orðið „fokking“ kemur aftur og aftur. Það er útaf þessu sem söngurinn og trumbuslátturinn er kannski meira ógenvekjandi en seiðandi. Kannski eru þetta ungu strákarnir i andahúsinu en þeir búa þar uppa lofti i níu mánuði á meðan þeir eru að breytast úr strákum í menn. Kannski eitthver önnur samkoma en andahúsin eru miðstöð karlmannanna i þessum heimi. Þeir segjast vera kristnir en andahúsin eru samt miðstöðin, upphaf og endir samfélagslegra og trúarlegra athafna.

Þó straumurinn í ánni sé meira en 4 hnútar komu þeir á kanó út til okkar og sögðu að við værum of utarlega, við skyldum ankera nær landi. Þá væri minni hætta á að stórt tré kæmi vaðandi á bátinn og bryti hann eða á ankerisfestina og rifi hana lausa. Svo vildu þeir versla. Wiskey eða annað sterkt. Við sögðumst ekkert eiga. Komu með kókoshnetur og vildu selja fyrir hrísgrjon. Eina kókoshnetu fyrir 1 kg af hrísgrjónum. Okkar maður sagði fjórar kókoshnetur fyrir kílóið af hrísgrjónum. Þeir vildu sýna útskurð sem þeir eru heimsfrægir fyrir. Okkar maður sagði að það væri of dimmt, við sæjum ekki gæði útskurðarins, þeir gætu komið aftur á morgun. Svo fóru þeir en okkar maður sagði að ef þeir fengju áfengi yrðu þeir vitlausir, að kókoshnetur væru minna virði en kartöflur hérna og hann nennti ekki að vera að garfa í útskurði núna, það þyrfti að huga að kvöldmat. Svo var drifið í að koma öllu lauslegu í skjól. Veiðistangirnar niður, sundgleraugun og fitin niður í læstan kassa nema sundbuxurnar og handklæðið mitt. Ég sagði að þeir yrðu að hafa eitthvað upp úr krafsinu ef þeir kæmu í nótt. Félagarnir urðu alveg gapandi. Ekki láta undan í neinu. Ekki láta þá komast upp með neitt.
Við erum hvíti maðurinn, það fer ekkert á milli mála. Hvað varðar okkur um skort a virðingu? Varla að við þekkjum hugtakið.

Í gærkvöldi var söngurinn allt annar enda vorum við á allt öðrum stað. Þá byrjaði hann klukkan sex um kvöldið og stóð til níu. Og byrjaði aftur klukkan 5 um morguninn og hljómaði enn þegar við sigldum á brott um sexleitið. Og bæði talað orð og söngurinn send í gegnum hátalarakerfi, hátt stillt. Nema þetta var kristilegt. Kvöldsamkoma eftir myrkur og morgunmessa fyrir vinnu. Það söng í öllu nágreninu og ekki viðlit að sofa. Eitthvað hefði hvinið i einhverjum ef þetta hefði verið í vestrinu. Hvað þá ef þetta hefði ekki verið kristilegt.

Magnús Waage

Share this Post