Ljósanótt í Reykjanesbæ

/ september 3, 2006

Það er óhætt að segja að hátíðin í Reykjanesbæ tókst frábærlega og ekki hægt að lýsa henni í nokkrum orðum… skemmtileg, notaleg, spennandi, afslappandi, gagnleg, gefandi, fróðleg, gleðjandi, göfgandi, sólrík og seðjandi…

Það var KBÍ, í samstarfi við SPRON og Sparisjóð Keflavíkur, sem skipulagði þessa helgi, það sem snéri að okkur skútufólkinu og tókst frábærlega. Föstudagskvöld buðu Sparisjóðirnir skútufólki til veglegs kvöldverðar og gáfu verðlaun sem voru óvenju veglegir og fallegir gripir. Milli 10 og 15 skútur voru í smábátahöfninni, þeirri frábæru höfn.

Við bíðum eftir formlegum úrslitum til að birta hér á síðunni og einnig fleiri myndum. En það er skemmst frá því að segja að áhöfnin á Ísold vann keppnina til Keflavíkur. Það var sérstaklega skemmtilegt þar sem meðalaldurinn var sérlega lágur, tveir Aronssynir brostu hringinn þegar þeir tóku við verðlaununum.

Á laugardaginn var efnt til hvalaskoðunarkeppni. Siglt var út að gps-punkti þar sem vænlegt þykir að sjá hvali. Engin stórhveli létu sjá sig en urmull hnýsu eða hnýðinga lék sér allt í kringum bátana. Óvenjulegt og skemmtilegt var að sigurvegarinn var dreginn úr potti þátttakenda. Verðlaunin voru afar vegleg, flugmiðar til útlanda. Það var áhöfnin á Dögun sem var sú heppna í þetta sinn.

Við óskum skipuleggjendum til hamingju með vel heppnaða helgi og hlökkum til næstu Ljósanætur.


{mosimage}


{mosimage}


{moscomment}

Share this Post