Martröð hvers kjölbátasiglara

/ ágúst 11, 2012

Það var ein versta martröð hvers skútusiglara sem kom fyrir Kjartan á Díunni síðla dags í gær þegar hann var að sigla í miklum vindi inn Skerjafjörðinn og kjölurinn brotnaði af. Skipti engum togum að skútan fór á hvolf og hann þurfti að bjarga sér upp á botninn án nokkurs möguleika á að gera viðvart með talstöð eða síma. Bátinn rak á hvolfi hratt undan suðvestanáttinni meðan hann stóð og veifaði og vonaði að einhver í landi tæki eftir skærgula sjógallanum. Það var þó ekki fyrr en þremur tímum síðar, þegar hann hafði rekið norður fyrir Akurey í átt til Kjalarness, að skemmtiferðaskip tók eftir honum og kallaði á björgunarsveitir. Svo vel vildi til að Slysavarnarfélagið Landsbjörg var við æfingar á nýju björgunarskipi og gat komið honum hratt til bjargar. Var hann vonum feginn, enda tekið að skyggja.

Björgunarskipið dró svo bátinn á hvolfi inn að öldubrjótnum þar sem menn björgunarsveitarinnar og Birgir Ara, sem kallaður hafði verið út þegar Kjartan skilaði sér ekki inn í Kópavogshöfn, aðstoðuðu eigendur við að rétta bátinn af og dæla úr honum. Día situr nú í stæði við flotbryggjuna, en ljóst er að hún siglir varla meir þetta sumar með mastrið tvíbrotið og kjölinn á tvítugu dýpi.

Share this Post