Mótvindur

/ desember 11, 2006

{mosimage}Það er ótrúlega amasamt að sigla beitivind. Pus og aftur pus. Allt
verður saltstorkið, saltið dregur í sig rakann svo maður er alltaf
blautur. Enginn vatnsheldur klæðnaður því hérna átti að vera svo heitt
að það gerði ekkert til þó maður blotnaði. En 28 gráðu heitur sjór og
32 gráðu heitur vindur eru bara ekkert heit þegar maður er blautur…


Þó að maður hangi lengst af inni í hundahúsinu kemur að því fyrr eða síðar að maður þarf út. Spottarnir í vindstýrinu slitna, autopilotinn slær út, það þarf að herða á skauti eða venda, loftpressan fyrir köfunarbúnaðinn losnar af festingunum, bensíntankurinn í gúmmíbátnum er kominn á hliðina og bensínið flýtur út. Í beitivindi losnar allt. Ekki bara allt sem losnað getur, heldur allt. Maður reynir að stökkva út á milli ágjafanna, reynir að sleppa nokkurn vegin þurr í þetta skiptið en ágjöfin nær manni alltaf. Pusið er eins og það er.

Svo rifnar genúan. Henni er rúllað inn og fokkunni á innra staginu rúllad út. En auðvitað rifnar hún líka, bara miklu, miklu minna, bara aftasti hlutinn sem er brenndur af sólinni þar sem hann hefur legið svotil óvarinn á rúllunni árum saman. Svo við siglum bara á rifinni fokkunni og það er sláttur á okkur.

Svo kemur Kallinn á vaktina og maður fær þriggja tima pásu. Það þíðir ekkert að reyna að opna ísskápinn eða suma skápana í 25 til 30 gráðu halla svo kosturinn er brauð án áleggs og vatn úr krananum. Svo er bara að borða á hinu takkinu. Þegar maður skríður saltblautur í kojuna verður allt svo þvalt að það er erfitt að sofna fljótt. Þar sem við erum bara tveir um borð getur maður valið sér koju hléborðsmegin. Ljós í myrkrinu.

Núna liggjum við í skjóli frá pálmunum á paradísareyju á yndislegu kóralrifi. Kallinn situr við að sauma. Verður sjálfsagt í tvo daga að sauma. Samt er hann með seglasaumavél. Ef vindurinn fer ekki mikið niður fyrir 25 hnúta ætlum við að leggja í hann með stormsegl á fremra forstaginu, viðgerða fokkuna á því aftara og með rifað stórsegl. Viljum frekar fara hægar og halla minna. Skemma jafnvel minna.

"Maður á aldrei að sigla beitivind" segir þjóðverjinn sem er búinn að vera í sjö ár í langsiglingum. Hann er á bát sem er breiður og hár og beitir illa. "Það gerir bara ekkert til" segir hann. "Ég hef ekki siglt beitivind nema i örfáa daga á þessum sjö árum. Maður ferðast með vindinum ekki á móti honum. Planar rétt. Bíður bara eftir rétta veðrinu ef eitthvað er mótdrægt." Og hann er aldeilis gáttaður á okkur að sigla frá Yap til Guam á móti 15-30 hnúta farvindunum. En mér verður hugsað til allra nýju bátanna sem siglt var heim frá evrópu á siðustu árum. Fengu þeir allir mótvind eða bara flestir ?

kveðjur frá 9 54,3n  139 39,6e 06.12.2006

Magnús Waage 

Share this Post