Nokkrar staðreyndir um bátaþjófnaði

/ nóvember 24, 2008

Einhvernvegin er maður svo saklaus í hugsun að manni dettur sumt ekki í hug. Þegar hollendingurinn fljúgandi kom hingað í sumar að endurheimta stolna báta þá átti fréttaritari við hann nokkrar samræður um bátaþjófnaði.
Í Hollandi einu er stolið þrettán þúsund bátum á ári.
Sumum er stolið til að smygla dópi. Sumum er stolið til að selja þá. Nú er farið að bera á þessu hér á landi og full ástæða til að vara sig. Bátaþjófnað er erfitt að rekja og oft auðvelt að stela bátum. Hér á landi hefur…

þetta almennt ekki verið mikið vandamál. Bátar hafa horfið í einhvern tíma en fundist aftur. Það er mjög erfitt að stela stórum bátum á Íslandi, eiginlega ómögulegt. Það er ekkert auðvelt að koma svona stórum hlutum frá landinu og ekki gáfulegt að reyna að selja þá hér.

Erlendis er bátaþjófnaður heilmikill bissness. Íslendingur var staddur í siglingaklúbb í Noregi að sötra mjöð eftirmiðdag nokkurn, þegar stóran kranabíl drífur að ásamt lögreglu og flutningavögnum. Síðan voru sex spíttbátar hífðir upp úr höfninni. Þegar hann spurði lögregluna hvað væri í gangi var honum sagt að þetta væru bátar sem stolið hafði verið í Svíþjóð og seldir í Noregi.

Hollendingurinn var einu sinni staddur á bátasýningu. Hann skoðaði raðnúmerin á öllum utanborðsmótorum sem þar voru. Þeir voru allir stolnir. Lögreglan og viðeigandi aðilar sáu ekki ástæðu til að gera neitt í málinu því kostnaðurinn við það var svo mikill. Og ekki kæra tryggingafélögin sig um það.

Í stuttu máli er þetta þannig að ef þér býðst að kaupa bát á grunsamlega góðu verði, þá er eitthvað undarlegt í gangi. Ef sagan er eitthvað á þá leið að seljandinn hafi átt bátinn með föður sínum, sem er ný látinn, eða eiginkonan sé nýdáin eða eitthvað svoleiðis sem á að valda samúð, þá getur þú verið nokkuð viss um að það er verið að reyna að selja þér þýfi.

Ef ekki er hægt að sannreyna eigendasögu bátsins og svo framvegis þá hefur þú ekkert meira við seljandann að tala.

Ef þú kaupir þýfið og réttur eigandi finnur bátinn, þá tekur hann bara bátinn og þú færð peningana aldrei til baka.

Share this Post