Samflot á Sigló 2018

/ apríl 4, 2018

Þann 13. mars síðastliðinn var fundur um fyrirhugaða samsiglingu á Siglufjörð fyrir norrænu strandmenningarhátíðina sem verður haldin þar 4. til 8. júlí í sumar. Á fundinum voru ýmsar hugmyndir ræddar eins og varðandi tímasetningar, undirbúning, ábyrgðir, áhafnarpláss og fleira. Talsverður áhugi er á siglingunni hjá nokkrum bátseigendum og sömuleiðis eru áhugasamir siglarar sem vilja koma með. Hugmyndin er að koma upp vettvangi þar sem fólk getur auglýst eftir plássi/auglýst laust pláss. Hnykkt var á því að skipstjórar bera sjálfir ábyrgð á sér og sínum, eins og venjulega, þótt um samflot sé að ræða, og þurfa að vera með haffæri og öryggisbúnað.

Siglingin verður tímasett með tilliti til veðurs dagana fyrir 4. júlí. Þetta er um 280 mílur og því tæpra þriggja daga sigling um einhver fegurstu hafsvæði Íslands. Nokkur umræða var um stopp á leiðinni og voru sumir á því að betra væri að ákveða það með stuttum fyrirvara og hliðsjón af veðri. Hægt er að hafa ákveðna staði á leiðinni þar sem safnast er saman ef of mikið dregur sundur með bátum sem hyggjast sigla í samfloti. Símasamband er nánast alla leiðina. Umræður spunnust um tilkynningaskyldu í þessum tilvikum.

Svo var umræða um það hvernig félagið gæti komið að hátíðinni fyrir norðan. Það verður gríðarlega mikið um að vera þar þessa daga og kannski að bera í bakkafullan lækinn að skipuleggja einhverja viðburði. Stjórn félagsins hefur hug á að koma að móttöku flotans á Sigló með einhverjum hætti, en hugsanlega verða æfingabúðir kænudeildanna þar þessa sömu viku og því margir félagsmenn á staðnum.

Ákveðið var að við myndum boða framhaldsfund í maí til að ræða frekara fyrirkomulag. Skútueigendum sem vilja frekari upplýsingar um hópsiglinguna er bent á síma siglingafélagsins: 895-1551. Samflotið verður opið öllum, hvort sem þeir eru félagar í Brokey eða ekki.

Share this Post