Skipið

/ febrúar 29, 2008

{mosimage}Við höfum nú lítið fjallað um bækur hér á vefsíðunni en samt eitthvað.
Þó nokkuð sé liðið frá því bókin Skipið kom út (2006), þá langar okkur, að gefnu tilefni, að benda þeim á hana sem ekki hafa þegar lesið hana.

Þessa bók verða allir sjófarendur að lesa. Sumir myndu eflaust segja að þetta væri saga fyrir …

… karlmenn. Þetta er þéttur tryllir sem nær manni strax á fyrstu síðu. Lýsingarnar eru þannig að maður sogast inní atburðarásina. Hún er á köflum svo ljóslifandi að manni stendur ekki á sama.


Á baksíðu bókarinnar segir:
Óveðursský hrannast upp og eldingar rista himininn þegar fraktskipið Per se
leggur úr höfn á Grundartanga og tekur stefnuna á Suður-Ameríku. Níu
skipverjar eru um borð, flestir með [vægast sagt] eitthvað misjafnt í farteskinu. Nokkrir
mannanna hafa heyrt að segja eigi upp áhöfninni og hyggjast því grípa til
sinna ráða um leið og storminn lægir. Andrúmsloftið í skipinu er þrungið
tortryggni, ógn og fjandskap og þegar sambandið við umheiminn rofnar er eins
og ill öfl taki völdin …

 
Hvílir bölvun á skipinu? Er laumufarþegi um borð? Á meðan Per se velkist í
fárviðri úti á reginhafi heyja skipverjar harða baráttu við margvíslegar
hættur, baráttu sem stigmagnast þar til hún verður upp á líf og dauða.

Skipið, sem er sjöunda skáldsaga Stefáns Mána, er hörkuspennandi tryllir og
svo magnaður að lesanda rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.

Þó eru atriði í bókinni sem eru ekki sannfærandi. Við förum ekki útí þau atriði hér, til að skemma ekki lestur þeirra öfundsverðu sem eiga eftir að lesa hana.
Þó verður varla sagt að höfundur hafi ekki unnið heimavinnuna sína, því sagan segir að við undibúning bókarinnar hafi Stefán Máni farið í Stýrimannaskólann (Fjöltækniskólann). Meðan flestir lærðu um hvernig ætti að fara vel með hluti og gera allt rétt, voru spurningar Stefáns Mána oftast á þessa leið: Hvernig eyðileggur maður skipsvél á einfaldan og öruggan hátt?
Stefán Máni er þekktur fyrir að sökkva sér ofan í viðfangsefnið og leggja ýmislegt á sig til að kynnast viðfangsefninu að eigin raun.

Stefán Máni hlaut Blóðdroann, Íslensku glæpasagnaverðlaunin 2007, fyrir glæpasöguna Skipið. Skipið var jafnfram valið framlag Íslands til Glerlykilsins, Norrænu glæpasagnaverðlaunanna 2008.


Rökstuðningur dómnefndarinnar fyrir vali sínu var þessi:
Blóðdropann 2007 og tilnefningu Íslands til Glerlykilsins hlýtur Stefán Máni fyrir sögu sína Skipið. Höfundur sýnir í þessu verki geysigóð tök sín á forminu, þar sem hann skapar svo þrúgandi og ógnvekjandi andrúmsloft að lesandinn á bágt með að slíta sig frá ógeðfelldri áhöfn hins skelfilega skips. Þá ber einnig að geta þess að dómnefndin hreifst sérstaklega af hæfileikum höfundarins í tungumáli og stíl.


Hafið þið lesið bókina? Hafið þið lesið áhugaverðar bækur sem við hin gætum haft gaman af að lesa?

Share this Post