Skúta í óskilum

/ júlí 21, 2008

Eins og MW bendir á og fram kemur á dv.is, þá er skúta í óskilum á Höfn í Hornafirði. Það sem vekur athygli er að hún kemur hingað um svipað leyti og Pólstjarnan fræga. Í því máli kom fram að áður hafi skúta komið þar að landi og engin vitjað hennar í nær eitt ár uns hún hvarf óforvarendis…

Leiddu menn að því líkum að sú skúta hefði verið nýtt til innflutnings fíkniefna. Sá innflutningur hafi tekist.

Samsæriskenning: Fíkniefnasalarnir vissu að fyrr eða síðar lokaðist þessi leið og sífellt þyrfti að leita nýrra leiða. Því var sett á svið leikrit til að slá ryki í augu lögreglu. Aðalleikarinn í því leikriti var Pólstjarnan. (Nafnið Pólstjarnan var reyndar nafnið á aðgerðum lögreglu, ekki nafnið á skútunni). Á meðan allra augu beindust til Fáskrúðsfjarðar, læddust þessir inn á Höfn í Hornafirði, nokkurs konar sjónhverfing. Í þessum báti, sem nú liggur á Höfn og merkilegt nokk er einnig Bavaria, var stóra sendingin, e.t.v. eitt tonn af fíkniefnum, enda þessi skúta heil 42 fet. Pólstjarnan var 34 fet. Víst er að Pólstjörnumálið hækkaði ekki götuverð fíkniefna á Íslandi, nema síður sé. Því er ljóst að uppljóstrun Pólstjörnumálsins hafði engin áhrif á framboðið fíkniefna hér á landi.

Það þorir engin að vitja þessarar skútu, sem nú liggur á Höfn, á hættu við að verða gripinn glóðvolgur. Betra sé að láta skútuna eiga sig og líta á hana sem glataða enda 15-20 millur aðeins brotabrot af fíkniefnagróðanum, hafi hún verið keypt á annað borð.

Hér er mynd af samskonar skútu og þeirri sem liggur á Höfn.

{mosimage}

Taka skal fram að hér lætur fréttaritari sína andans truntu þeysa og kenningarnar eiga ekki við nokkur rök að styðjast. Ef höfundur hins vegar finnst með steypustígvél í höfninni, þá er kannski eitthvað til í sögunni.

Share this Post