Skútufólk ofsótt

/ maí 7, 2009

Undanfarið hefur varla mátt hreyfa seglbát. Þegar bátar komu frá Hafnarfirði í gær var tollurinn mættur á staðinn um leið og lagst var að bryggju. Það sama gerðist þegar önnur skúta var sett á flot nýlega, hafði sú þó staðið á Norðurgarðinum rúma viku þar sem verið var að botnmála hana og skvera smávegis.

Þetta er farið að minna illilega á það viðhorf sem birtist eftir títtnefnt slys fyrir  nokkrum árum þar sem ölvun átti þátt í að hraðbátur steytti á skeri með skelfilegum afleiðingum. Viðbrögðin voru þau að lögreglan eyddi tugum milljóna í kaup á spíttbát, og þjálfun manna á hann. Þegar rætt var við fólk sem starfaði hjá lögreglu og landhelgisgæslu var augljóst að flestir töldu skemmtibátasiglara alltaf dauðadrukkna á ferð á bátum sínum og full ástæða til að sýna þessum lýð í tvo heimana.

Staðreyndin er hins vegar sú að allur meirihluti skemmtibátasiglara, hvort sem er á vélbátum eða skútum, er fjölskyldufólk á kvöldsiglingu. Í eðlilegu ástandi.

Nú virðist alveg ljóst að skútusiglarar eru allir stimplaðir dópsmyglarar og skal fylgjast náið með þeim hvar sem til þeirra næst.

Staðreyndin er hins vegar sú að skútusiglarar eru íþróttafólk og fjölskyldufólkið fyrrnefnda. Skútusiglarar eru annað hvort að stunda íþrótt sína í keppni eða á rólegheitasiglingu um sundin. Sumt af þessu fólki sem stundar siglingaíþróttina starfar meðal annars hjá lögreglu og landhelgisgæslu…

Share this Post