Spennandi dagskrá á Hátíð hafsins
Nú stendur Hátíð hafsins fyrir dyrum í Reykjavík og dagskráin full af spennandi atriðum eins og vanalega. Brokey lætur ekki sitt liggja fremur en fyrri daginn og verður með opið hús á Ingólfsgarði frá tíu til fjögur og sérstaklega áhorfendavæna siglingakeppni klukkan tvö síðdegis.
En það er sitthvað fleira á dagskránni sem ætti að höfða til skútusiglara þennan dag. Í Viðey hefst sjómannaveisla klukkan ellefu og verður sjómannatilboð á matseðlinum hjá Viðeyjarstofu í tilefni dagsins. Siglt er frá Ægisgarði og Skarfabakka en fyrir bátafólk ættu að vera hæg heimatökin að taka snúning á eigin bát og viðra fyrir keppnina klukkan tvö.
Í sjóminjasafninu Víkinni opna þrjár spánýjar sýningar þennan dag; þar á meðal ein sem ber heitið „Siglt með þöndum seglum“ og fjallar um segl og seglagerð fyrri tíma. Kennsla í að hnýta sjómannahnúta verður svo á Grandagarði milli ellefu og fimm. Flestir dagskrárliðir sem áður voru á miðbakka hafa raunar verið færðir yfir á Granda þetta árið og þar verða hoppukastalar og fleira um að vera fyrir börnin. Um kvöldið er svo hægt að velja úr fjölda fiskréttatilboða á veitingahúsum bæjarins.
Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á vef hátíðarinnar.
Belgingur spáir hægri sunnanátt en veðurstofan hægri norðvestanátt og tíu stiga hita á laugardaginn.
Hér má svo skoða stemningarvekjandi myndir frá keppninni í fyrra og hér eru myndir frá 2006.