Tilhlökkun

/ janúar 5, 2018

Fyrir íslenskt siglingafólk eru margar ástæður til að horfa til ársins 2018 með tilhlökkun. Það eru spennandi hlutir að gerast í siglingum á Íslandi og von á nýjungum sem munu hafa áhrif til framtíðar ef að líkum lætur.

Kænusiglingar eru í uppsveiflu. Bæði Brokey og Þytur hafa fjárfest síðustu ár með því að ráða erlenda þjálfara. Það hefur skilað sér í auknum áhuga og meiri þátttöku. Næsta áskorun er að tryggja kænusiglingar allt árið og auka þannig líkur á að siglingar verði fyrsta íþrótt fleiri. Nökkvi hefur stundað um langt skeið að byrja snemma og enda seint og nú er von til þess að félögin á suðvesturhorninu festi vetrarsiglingar á kænum í sessi hjá sér næstu ár. Hópur kænusiglara úr þessum félögum stefnir á viku æfingabúðir í Weymouth Sailing Academy í Bretlandi nú í mars (sjá http://www.wpnsa.org.uk).

Á sama tíma er siglingakona ársins, Hulda Lilja Hannesdóttir, að æfa af kappi fyrir mesta siglingaviðburð okkar heimshluta í ár: heimsmeistaramót World Sailing í Árósum 30. júlí til 12. ágúst. Hulda hefur þegar tryggt sér sæti á mótinu og keppir þar á Laser Radial. Hún hefur áður tekið þátt í heimsmeistaramóti árið 2014 í Santander. Það er magnað að Ísland skuli eiga fulltrúa á þessu móti og sannarlega ástæða til að fylgjast vel með úrslitum í ár. Allar upplýsingar um mótið er að finna á vefnum https://www.aarhus2018.dk.

Í fyrra gerðust þau gleðitíðindi að norski úthafssiglingaklúbburinn Norsk Havseiler- og Krysserklubb boðaði uppfærða útgáfu af hinni fornfrægu siglingakeppni frá Björgvin til Hjaltlandseyja sem fram fer á hverju ári. Árið 2018 verður hægt að skrá sig til keppni í þremur leggjum milli Björgvin, Hjaltlandseyja, Færeya og Íslands. Hægt er að taka þátt í einum eða fleiri leggjum. Keppnin hefst í Björgvin 26. júní, og er gert ráð fyrir að síðasta legg ljúki í Reykjavík í kringum 12. júlí. Brokey tekur þátt sem gestgjafi hér á landi. Þetta er sérstaklega ánægjulegt því Ísland hefur ekki komið við sögu alþjóðlegra siglingakeppna frá því síðasta Skippers d’Islande-keppnin var haldin árið 2006. Það var því löngu kominn tími fyrir nýja úthafssiglingakeppni hér í Norðurhöfum. Full ástæða er til að hvetja íslenskt siglingafólk til að taka þátt, og einhverjar áhafnir eru sagðar vera að skoða sína möguleika. Allar upplýsingar um keppnina er að finna á vefnum http://www.vikingoffshorerace.no.

Íslensku mótin verða á sínum stað í sumar og verður spennandi að sjá hvernig þátttakan verður. Við hjá Brokey ætlum að halda ráðstefnu um framtíð Reykjavíkurmótsins (þriðjudagskeppna) fljótlega á nýju ári. Hugmyndin er að uppfæra þetta flaggskip félagsins sem sækir nú fast að fimmtugu og skapa meira aðdráttarafl fyrir þátttöku í mótinu. Breytingar á NORinu í vor munu taka mið af útkomu ráðstefnunnar.

Árið 2017 var viðburðaríkt í siglingum á heimsvísu. Við fylgdumst með Armel Le Cléac’h vinna nauman sigur á Alex Thomson í Vendée Globe-keppninni eftir hörðustu atlögu Breta að sigrinum um árabil. Sögulegum Ameríkubikar lauk með sigri Nýsjálendinga sem biðu ekki lengi með að boða gjörbreytt snið á næstu keppni, sem verður 2021. Í lok árs rústaði svo Francois Gabart heimsmetinu í hnattsiglingu þegar hann sigldi inn í Ermarsund eftir rétt rúma 49 daga þann 17. desember og bætti fyrra met um 6 daga.

Ef litið er framhjá úrslitum Volvo Ocean Race, sem munu ráðast í sumar, eru engir stórviðburðir af þessu tagi á döfinni í ár. Það er hins vegar af nógu að taka í spennandi siglingaviðburðum fyrir okkur hér á Íslandi.

Share this Post