Tölfræði

/ desember 29, 2006

Það er nokkuð fróðlegt að lesa tölfræði Íþrótta- og Ólympíusambans Íslands fyrir árið 2004.

Þar kemur m.a. fram að iðkendur siglinga voru 1.226 árið 2004.
Það ár voru 80% siglara karlkyns (og því 20% kvenkyns). Trúlega ekki mikið breyst síðan…

 


Karlar stunda frekar íþróttir en kvenfólk og eru í meirihluta iðkenda allra greina nema skautaíþrótta, fimleika, dans, blaks og sunds. Í nokkrum greinum eru karlar allsráðandi s.s. akstursíþróttum, lyftingum, skotfimi og vélhjólaíþróttum.

Flestir iðkenda stunda eina grein, en dæmi eru um einstaklinga sem stunda allt að 12 greinar. Býr einhver með slíkum kappa, eða rámar einhvern í það? Sést líklega ekki heima hjá sér.

Innan SÍL starfa 7 íþróttafélög.

Siglingar, ásamt golfi og hestaíþróttinni o.fl., bera af hvað varðar aldursdreyfingu. Hún er mun jafnari milli aldurshópa en aðrar íþróttir s.s. handknattleikur sem viriðst nánast leggjast af fyrir þrítugt. Meðalaldur iðkenda í SÍL er um 33 ár.

Stærsta íþróttafélag landsins er ekki knattspyrnufélag heldur Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur (TBR) með 3.889 félaga. Það knattspyrnufélag sem kemur næst því er KR með næstum helmingi færri félaga, eða 2.207.

Þó flestir iðkenda á Íslandi stundi knattspyrnu þá er endurspeglar fjölmiðlaumfjöllun ekki dreifingu iðkenda eftir greinum. Ef maður horfir á sjónvarpið, eða les blöðin mætti ætla að 90% iðkenda stunduðu knattspyrnu og restin stundaði handknattleik. Reyndin er þó sú að innan við 20% iðkenda stundar knattspyrnu!!! Ef fjölmiðlamenn eru spurðir af hverju svona mikið er sýnt af knattspyrnu í sjónvarpinu er svarið: „Það hafa svo margir áhuga á knattspyrnu“. En hvort kom á undan, eggið eða hænan. Þeir voru teljandi á fingrum annarrar handar áhugamönnum um Formúlu 1 áður en RÚV hóf þær útsendingar. Núna er þetta eitt vinsælasta sjónvarpsefnið. Fjölmiðlamönnum er í lófa lagið hvað þeir sýna, þar skipta vinsældir eða iðkun engu máli. Ef efnið er framreitt á skemmtilegan hátt, þá verður það vinsælt. Svo gæti einnig orðið um siglingar.
Þetta var nú útúrdúr og er ekki í skýrslu Íþrótta- og Ólympíusambans Íslands.

Undir skýrsluna skrifar Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Sá sem þetta skrifar varð þess aðnjótandi að alast upp með honum í Kópavogi. Stebbi var eldri og villingurinn í hverfinu. Maður var minntur á það reglulega. Maður passaði vel uppá að vera nánast á þröskuldinum heimavið áður en maður öskraði „Stebbi strútur!“ Stebbi gat nú samt verið ágætur. Við byggðum dúfnakofa, með ómeðvituðum stuðningi húsbyggjenda í nágrenninu. Nokkrar dúfur voru keyptar. Maður var sjálfsagt féflettur í þeim viðskiptum. Þær voru látnar hýrast í kofanum um tíma og gefinn maís að éta. Þegar Stebba þótti vera kominn tími til, var dúfunum sleppt því búið væri að þjálfa þær. Við sáum þær aldrei aftur.
Þetta stóð heldur ekki í skýrslunni.

Skoða má skýrsluna hér

Share this Post