Þriðjudagskeppni 26. ágúst – úrslit

/ ágúst 28, 2008

Það var afar flókin og kvikindisleg slaufubraut sem áhöfnin á Lilju bauð uppá. Hún var svo flókin að það var ekki á nokkurn mann leggjandi að muna hana og teiknuðu flestar áhafnir hana á blað til að hafa meðferðis …


Það var mál manna að þetta hefði verið skemmtileg braut. Það var varla sú bauja á flóanum sem ekki var notuð. Margir belgleggir, sumir reyndar svo stuttir að það tók því varla að setja upp belg. Dögun lét sig þó hafa það … stundum, enda hafa þeir yfir úrvals spinnakerpakkara að ráða.
Það er alveg ljóst að menn verða ekki leiðir á brautunum, það er aldrei sigld sama braut tvisvar. Vindur var góður alla brautina nema rétt fyrir framan markið, þar var lítill vindur. Áhöfnin á „Rosanum“, langstærsta skipi flotans tók þátt í fyrsta sinn. Þeir sigldu af sinni rómuðu kurteisi á eftir flotanum og voru ekkert að taka upp belg, annars hefði lambið í ofninum brunnið við. Það má ekki. Þeim var úthlutuð forgjöf, kannski soldið kvikindisleg. Trúlega á Rosinn að vera á svipuðu róli og Ögrun, en það hefði þó líklega ekkert gert fyrir þá enda hljóp sósan í kekki við sjöbauju svo það þurfti að sjóða upp nýja.

Share this Post