Þriðjudagur í Alicante

/ október 29, 2011

 

Það var frábært að fá tækifæri til að fylgjast með þessari keppni á new.livestream.com og það í þessum fínu gæðum.

Keppnin líktist þriðjudagskeppnunum hérna áður fyrr, ágætur vindur í upphafi en svo snérist og lægði og þeir sem náðu fyrstir fyrir Akureyjarrifsbauju voru hólpnir. Það þurfti meira að segja að stytta brautina vegna vindleysis.

Fyrir keppnina spáðu flestir Pumu sigri, en það var áhöfnin á Abu Dhabi sem rótburstaði keppnina og sú eina sem meistarabragur var á. Þeir voru rúmar 14 mínútur á undan næsta báti. Það er þónokkuð eftir klukkustundarlanga keppni! Einhverjir höfðu haft á orði að Abu Dhabi gæti orðið skeinuhætt því þeir hafa að sögn átt í djúpa vasa að seilast við hönnun og smíði báts og búnaðar. Þeir segjast þó ekki ætla að láta þetta stíga sér til höfuðs, keppninni lýkur ekki fyrr en í júlí á næsta ári.

Í öðru sæti var títtnefnd Puma. Í þriðja sæti kom Camper. Reyndar hafa þeir á sig kæru svo það er ekki ljóst hvar þeir enda. Kínverski báturinn Sanya kom á óvart og náði fjórða sæti. Næst síðastur var franski báturinn Groupama. Skipstjóri hans hefur margoft siglt umhverfis jörðina … einn. Frönskum siglurum leiðist greinilega annað fólk og vilja helst vera einir. Þá er bara að sjá hvernig þeim á eftir að lynda, 13 frakkar á litlum bát á stóru hafi þar sem ekki er þurr þráður, bara táfýla, frostþurrkaður matur í öll mál og ekkert rauðvín. Báturinn þeirra er sagður þungur (kannski er hann fullur af rauðvíni eftir allt saman?). Þeir héldu þó lengi vel í við Abu Dhabi og Camper á fyrsta leggnum. Síðan fór að halla undan fæti en þeir voru óhræddir að leika aðra taktík en hinar áhafnirnar, sem er gott, ef maður er aftarlega. Kannski kann báturinn betur við sig í frískari vindi. Síðastur var svo spánski báturinn Telefonica sem var vægast sagt úti að aka í þessari keppni. Svo virðist sem áhöfnin sé ekki nægilega samstillt. E.t.v. spilar þar inní lítið kostunarfé (Spánn jú nó). Á heildina litið var þetta soldið klunnalegt, enda eru þessir bátar ekki hannaðir fyrir svona keppni. Stigakerfið er samt þannig uppsett að þessar litlu „In-Port“ keppnir gefa mörg stig miðað við hve stuttar þær eru. Sumir segja að úrslitin ráðist af framistöðu áhafna í þessum litlu hafnarkeppnum.

Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu. Laugardaginn 5. nóvember verður fylgst með ræsingu á fyrsta og lengsta legg keppninnar, 6.500 sjómílur til Höfðaborgar. 

Share this Post