Día sigraði

/ september 6, 2011

Þátttakan í síðustu formlegu þriðjudagskeppni sumarsins var mjög góð. Alls tóku átta bátar þátt. Eini sem skrópaði var vindurinn, en kvöldið var fallegt. Lögð var stutt braut sem þó þurfti að stytta. Um tíma var tvísýnt hvort keppendur næðu í mark fyrir myrkur, vegna vindleysis.

Það bar helst til tíðinda að áhöfnin á Díu sigraði en í áhöfn Díunnar var einn rammgöldróttur maður með tíu hendur, hann Kjartan Ásgeirsson. Ekki nóg með að hann hafi skotið keppinautum sínum ref fyrir rass heldur tók hann allar þessar myndir sem hér má sjá í „nánar“.

Í miðri keppni, fyrir utan Laugarnesið sá áhöfnin á Dögun til botns í kvöldhúminu. Ekki vegna þess að Dögun hafi verið komin upp í fjöru að telja marflær, dýptarmælirinn sýndi 7,4 metra. Sjórinn virðist einstaklega tær nú í sumar. Hvort þetta sé til marks um lífleysi hafsins skal ósagt látið. 

Þó Lokamótið sé á dagskrá um næstu helgi og keppnisdagskrá sumarsins þar með tæmd er ætlunin að halda þriðjudagskeppnum áfram út september meðan veður leyfir. Það er bara ekki hægt að hætta, sumarið er nýbyrjað.

Hér sést keppnisbraut dagsins merkt með rauðu. Bláa punktalínan sýnir stytta braut. Ein stysta braut sumarsins, samt tók það báta um og yfir tvær klukkustundir að sigla þessa stuttu leið. 

 

 

 

Skipstjórinn, stýrimaðurinn, framdekksmaðurinn, stórseglstrimmarinn, kokkurinn og messaguttinn Kjartan Ásgeirsson sáttur með úrslitin. 

 

 

 

Share this Post