Úrslit sumarmóts

/ júní 23, 2011

Sumarmót Brokeyjar fór fram síðasta laugardag í blíðviðrinu í Nauthólsvík. Keppt var í fjórum flokkum en aðeins náðust tvær umferðir áður en datt í dúnalogn svo jafnvel kænurnar hreyfðust ekki.

Keppendur flykktust á mótsstað morguninn 18. júní í blíðviðri sem einkennt hafði kvöld þjóðhátíðardags Íslendinga sem og nóttina fyrir daginn. Blíðviðri í skilningi landkrabbans er þó eitur í beinum siglingamanna. Þrátt fyrir von um sæmilegan sólvind rættist illu heilli spáin um hæga, breytilega átt og setti mark sitt á keppnina.

Keppendur voru þó allir hinir bjartsýnustu og voru bátar komnir upp stuttu fyrir skipsstjórafund. Þar var farið stuttlega yfir keppnisfyrirmælin og—þar sem eitthvað var um óreyndari kappa að ganga inn í siglingasamfélagið okkar—stuttlega farið yfir þau flögg sem þau kæmu líklegast til með að sjá.

Alls skiluðu sér fjórtán keppendur og nægðu til að fylla fjóra flokka: Optimist A, Optimist B, Laser Radial og Opinn flokk. Optimist A flokkur er fyrir keppendur sem kepptu á Íslandsmótinu 2010 í A flokki eða náðu í eitt fimm efstu sætanna í B flokki. Í opnum flokki var einn Laser 4.7 og tveir Topper Topaz bátar.

Að fundi loknum hélt hersingin út í andvarann og mjakaði sér að brautinni sem staðsett var við mynni Fossvogs. Þegar þangað var komið breyttist vindátt snarlega og eftir að brautin var löguð féll vindur algerlega niður. Að lokum var úr ráðið að færa brautina utar í Skerjafjörðinn, Ægissíðu-megin við Sker.

Þar fékkst loksins bærilegur byr og náðust tvær stuttar keppnir sem hver um sig var um tuttugu mínútur. Í flokki Laser Radial sýndi Þorlákur Sigurðsson úr Nökkva, nokkra yfirburði og vann báðar keppnirnar örugglega. Anders Rafn, Guðmundur Ísak og Eyþór Pétur bitust um hituna og skildu í lokin einungis eitt stig að á milli þeirra. Keppnin var ennfremur ákaflega spennandi því í fyrri keppninni kom Guðmundur í mark einungis ellefu sekúndum á eftir Eyþóri. Í þeirri seinni varð Eyþór þó að snúa í land sökum bilunar.

Í öðrum flokkum voru úrslitin samkvæmari og komu bátar í mark í sömu röð í báðum keppnum. Í opna flokknum sigldi Sigurður Seán, Nökkva, fremstur í flokki og kom í mark með um eða yfir tvær mínútur á Topper Topaz bátana í útreiknuðum tíma. Mest var baráttan þó í Optimist flokknum þar sem örfáar sekúndur skildu að nokkra báta og eitt sætið réðist á loka metrunum þegar einum kappanum tókst að grípa hviðu og stinga sér fram úr næsta bát fyrir framan á lokametrunum við markið.

Sigurvegari Optimist A flokks varð á endanum Búi Fannar Ívarsson, Brokey en Optimist B flokk sigraði Baldvin Ari Jóhannesson, Ými.

Þar sem komið var vel fram yfir hádegi var ráðið að halda í land og gæða sér á hamborgurum sem stjórnarmenn Brokeyjar elduðu. Laser og Topaz bátarnir voru sendir í land en seglin tekin niður á Optimist bátunum, þeir skildir eftir við keppnisstjórnarbátinn og siglingamenn ferjaðir í land á vélbátum þjálfara Brokeyjar og Ýmis.

Að snæðingi loknum var skundað aftur út á haf til að reyna við að minnsta kosti eina keppni í viðbót, en veðrið var engu samvinnuþýðara en um morguninn og vind lægði stöðugt. Gerð var tilraun til eins starts í Optimist flokkum en hægur vindurinn nægði ekki til að berjast á móti aðfallinu. Keppni var frestað og stuttu síðar var frekari umferðum blásið af.

Heildarúrslit má finna hér að neðan. Sökum tæknilegra örðuleika reyndist ekki fært að ná tímum í fyrri umferð Optimist flokkanna.

Að veðrinu undanskyldu tókst mótið ágætlega, siglingamenn sigldu eins og herforingjar og höguðu sér drengilega. Vill keppnisstjórn koma sérlegum þökkum til foreldra og aðstandenda keppenda sem aðstoðuðu við framkvæmd mótsins á sjó og í landi. Eins eiga þjálfarar Brokeyjar og Ýmis, Kári og Ólafur Víðir, þakkir skilið og svo síðast en ekki síst Áki og meðeigendur hans að Míu sem sinnti hlutverki keppnisstjórnarbáts á mótinu.

Fleiri myndir er hægt að sjá í myndasafni Kænudeildar undir Kænudeild -> Myndasafn.

Úrslit

Optimist A

Sæti Keppandi Keppni 1 Keppni 2 Heildarstig
Sigldur tími Stig Sigldur tími Stig
1. Búi Fannar Ívarsson   1 00:22:31 1 2
2. Hrefna Ásgerisdóttir   2 00:22:43 2 4
3. Gunnar Bjarki Jónsson   3 00:22:52 3 6

Optimist B

Sæti Keppandi Keppni 1 Keppni 2 Heildarstig
Sigldur tími Stig Sigldur tími Stig
1. Baldvin Ari Jóhannesson   1 00:23:57 1 2
2. Þorbjörg Erna Mímisdóttir   2 00:24:17 2 4
3. Þorgeir Ólafsson   3 00:26:03 3 6
4. Huldar Hlynsson   4 00:27:29 4 8

Laser Radial

Sæti Keppandi Forgjöf Keppni 1 Keppni 2 Heildarstig
Sigldur tími Útreiknað Stig Sigldur tími Útreiknað Stig
1. Þorlákur Sigurðsson 1101 00:20:44 00:18:50 1 00:19:40 00:17:52 1 2
2. Anders Rafn Sigþórsson 1101 00:23:20 00:21:12 2 00:21:26 00:19:28 3 5
3. Guðmundur Ísak Markússon 1101 00:26:16 00:23:51 4 00:20:41 00:18:47 2 6
4. Eyþór Pétur Aðalsteinsson 1101 00:26:05 00:23:41 3 DNF DNF 5 8

Opinn flokkur

Sæti Keppandi Forgjöf Keppni 1 Keppni 2 Heildarstig
Sigldur tími Útreiknað Stig Sigldur tími Útreiknað Stig
1. Sigurður Seán Sigursson 1175 00:23:13 00:19:46 1 00:20:24 00:17:22 1 2
2. Björn Bjarnarson & Hjörtur Már Ingason 1200 00:26:35 00:22:09 2 00:23:02 00:19:12 2 4
3. Ólafur Már Ólafsson 1200 00:27:04 00:22:33 3 00:24:17 00:20:14 3 6
Share this Post