VOR í vasaútgáfu

/ janúar 22, 2009

Stóru keppnirnar og allt brjálæðið í kringum þær, öll þróunarvinnan og peningarnir sem fara í það skilar sér niður í litlu bátana.
Kominn er á markað fjöldaframleiddur „Open 6“, pínulítill VOR-bátur. Báturinn er sem sagt 6 metra langur (um 18 fet). Hann er með veltikjöl sem stýrt er með takka í stýri bátsins. Rafmagnsglussakerfi sér um færsluna og þeir lofa að það verði ekkert vesen á þessum veltikili. Fyrir vikið er hægt að hafa seglaflötinn mjög stóran. Það gerir það aftur að verkum að báturinn getur planað í litlum vindi, allt niður í 8 hnúta vindi. Í reynslusiglingum hefur hann oft farið yfir 15 hnúta. Báturinn þykir heppilegur fyrir þriggja manna áhöfn.
Mastrið er snúningsmastur til að minnka mótstöðu og að sjálfsögðu úr koltrefjum eins og bóman og genakerpóllinn. Báturinn er með tvö stýrisblöð.

Svo er hægt að lyfta veltikilinum og kjalblaðinu svo auðvelt er að setja hann á kerru.
Hönnuður bátsins er Jurian Rademaker sem hefur tekið þátt í mörgum VOR-bátaverkefnum. Báturinn er smíðaður í Hollandi. Ætlunin er að halda verðinu niðri með fjöldaframleiðslu. (Verðið er þó svínslegt í íslenskum krónum talið).

Sjá nánar hér. Sjón er sögu ríkari.


Share this Post